Boð Breta og Hollendinga til Íslendinga um að leggja fram nýtt tilboð í Icesave-deilunni hefur enn ekki komið til umræðu á Alþingi. Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að löndin hafi komið þeim skilaboðum til íslenskra stjórnvalda að tilboð sem byggir á þeim skilmálum sem koma fram í boðinu yrði tekið.

Síðasta tilboð sem Bretar og Hollendingar gerðu hljóðaði upp á 110 milljarða króna eingreiðslu sem greiða ætti fyrir vaxtafrí fram til 1. janúar 2012. Eftir þann tíma ættu eignir Landsbankans að ganga upp í höfuðstól Icesave og vextir byrja að reiknast ofan á það sem eftir stæði. Þeir myndu verða 2,5% til 3,5% álag ofan á LIBOR-vexti og leggjast ofan á lánið á árunum 2012 til 2016 þegar lokauppgjör færi fram. Nýja boðið felur í sér að eingreiðslan fyrir vaxtaleysið lækkar um 50% til 75%.

Bretar og Hollendingar mega ekki, að eigin frumkvæði, gefa afslátt af samningsmarkmiðum sem sett voru fram í sérstöku erindisbréfi. Þess vegna er Íslendingum boðið að gera tilboð.