Óskar hefur unnið að gininu núna í þrjú ár. „Þetta byrjaði í raun sem eldhúsverkefni hjá mér því ég ákvað að búa til gin fyrir mig og mína fjölskyldu. Við veiðum mikið og erum í útilegum og eigum land norður á Ströndum þar sem við eyðum miklum tíma. Mig langaði að vera með eitthvað sem ég gæti drukkið óblandað á meðan ég stæði í ánni að veiða með innblástur frá jurtum í kring, blóðbergi, hvönn, einiberjum og auðvitað vatni sem ég stæði í.

En ég geti samt farið svo með það upp í kofa og gert kokteil úr því líka því gin er yfirleitt alltaf drukkið blandað. Það sem ég bjó til er Old Tom gin, sem er gömul uppskrift frá átjándu öld. Það er sætara en venjulegt gin, ekki jafn beiskt og rennur ljúflega niður. Þegar ginið er hins vegar blandað þá kemur allt önnur vídd í drykkinn, blóðbergið blómstrar en auðvitað fer það eftir í hvað það er blandað. Ég var í þrjú ár að þróa þetta gin og hef leitað mjög lengi að félögum til að gera þetta með því ginið hefur fengið góð viðbrögð hjá þeim sem hafa smakkað og hef ég fengið mikla hvatningu frá fagmönnum að framleiða þessa vöru. Ég hitti svo Fannar og Harald í gegnum sameiginlegan vin fyrir þremur mánuðum síðan og þá fór boltinn að rúlla.“

Sameiginlegur gináhugi

Fannar og Haraldur leiddust út í verkefnið með Óskari vegna sameiginlegs áhuga á gini. „Við Fannar höfum þekkst frá því í menntaskóla og vorum byrjaðir að huga að gin framleiðslu þegar við hittum Óskar og ákváðum að slá til þar sem við kolféllum fyrir gininu og hugmyndinni,“ segir Haraldur. „Almennt vegur hugmyndin jafn mikið og bragðið og fannst okkur Fannari þetta gin fanga allt sem þarf fyrir hinn fullkomna veiðidrykk pælingu í flösku.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak í pdf-formi undir Tölublöð.