Á dögunum kom íslenska appið The One, nýtt stefnumóta app, út fyrir Android og iPhone notendur. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

„Appið er mótsvar við þeim vefstefnumótamiðlum sem standa notendum til boða í dag, en flestir þeirra hafa þróast í átt að skyndikynnum þar sem notendur eru neyddir til að fordæma hvora aðra útfrá útliti," segir í tilkynningu.

„Appið virkar með þeim hætti að notendur fá úthlutaðri einni manneskju, eða svokölluðu matchi, á dag. Notendur hafa svo til miðnættis til að spjalla saman og kynnast, en það eina sem þeir sjá um hinn aðilann er ein mynd, fornafn og fjarlægð. Á miðnætti hverfur svo manneskjan að eilífu nema báðir aðilar vilji framlengja spjallið og geta þá byrjað að senda myndir og GIF sín á milli. Konur sem sækja appið geta strax byrjað að nota appið, en karlmenn þurfa að fá kóða frá einhverri vinkonu sem er með appið. Þannig eru allir karlmenn í boði konu á appinu, sem er ein leið af mörgum sem The One nýtir til að minnka áreiti í garð kvenna á appinu."

„Við trúum því að ef þú ert raunverulega að leita þér að maka, þá sé besta leiðin að eiga samtal við fólk og sjá hvort að fiðrildin fari af stað í maganum, en ekki að fordæma fólk útfrá útliti og setja svo símann í vasann. Fólk notar mörg stefnumótaöpp til að næra sjálfsöryggið og er hætt að tala saman og gefa hvoru öðru séns,” segir Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóra The One.