Nú í vikunni kom á almennan markað hið rómaða veitingahúsakaffi Gráa kattarins. Kaffið inniheldur fimm sérvaldar tegundir arabíka bauna sem eru brenndar að frönskum hætti, að því er segir í tilkynningu.

„Grái kötturinn er kaffihús á Hverfisgötunni og hefur ekki farið varhluta af áhrifum þeirra takmarkana sem lífi okkar á Íslandi er sett þessi misserin. Því var ákveðið að bregðast við ástandinu með því að koma kaffinu sem notað er á Gráa kettinum í verslanir,“ segir í tilkyningu.

María Elínardóttir myndlistarkona vann myndirnar á kaffipokana og Arndís Lilja hönnuður sá um uppsetningu og hönnun. „Þess má geta að konan sem tók tvær af myndunum þremur á pökkunum var Elín Kaaber, langamma Maríu,“ segir í tilkynningunni. Enn fremur að þó að umbúðirnar komi í þremur ólíkum útgáfum sé innihaldið það sama í þeim öllum.