Hótel Akureyri hóf nýlega grænmetisræktun í húsnæði hótelsins. Grænmetið verður notað á veitingastað hótelsins og selt áhugasömum bæjarbúum. Daníel Smárason hótelstjóri segir ræktunina samræmast umhverfisstefnu hótelsins vel, og starfsemin verði auk þess til sýnis fyrir gesti þess.

„Við stefnum að því að fólk geti komið og fengið kynningu á ræktuninni, en líka bara til dæmis að fólk geti komið og borðað morgunmatinn sinn þar eða haldið þar fund. Íslendingar eru að mörgu leyti vanir þessu, okkur finnst ylrækt sjálfsagðasti hlutur í heimi, en svo koma ferðamenn og eiga ekki til orð yfir því hvað er verið að gera hér á landi í þessum málum.“

Krafa viðskiptavina um græna nálgun sé alltaf að aukast, og þetta sé ein leið til að bregðast við henni. „Gestirnir eru komnir hingað útaf náttúru og umhverfi og okkur finnst það því viðeigandi að bjóða þeim upp á umhverfisvænt handverk í þessum efnum, og þá upplifun að sjá með eigin augum hvaða möguleikar eru fyrir hendi með hreinu íslensku vatni og endurnýjanlegri orku.“

Vendipunktur í innandyraræktun
Ræktunin fer fram í rými sem áður hýsti þvottahús hótelsins, en þvottinum hefur nú verið útvistað. Daníel segir ákvörðunina endurspegla breyttar áherslur, en húsið sem um ræðir er gamalt og liggur utan á hótelinu. „Við ákváðum að hugsa það upp á nýtt og endurskilgreina það sem borgarbú. Við erum að kaupa inn ræktunarbúnað sem byggir á vatnsveitukerfi (e. hydroponics). Við notum engan jarðveg, heldur ræktum mat bara í vatni sem við dælum í hringrás. Lýsingin kemur líka öll frá ljósum, þannig að við stýrum öllum aðstæðum þarna inni frá A til Ö.“

Starfsemin fellur undir skilgreiningu svokallaðs lóðrétts landbúnaðar – sem felst í innanhússræktun þar sem öllum aðstæðum er stjórnað af mikilli nákvæmni – og er í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og Eim, sem er samstarfsverkefni á vegum orkufyrirtækjanna. „Það er að verða ákveðinn vendipunktur í ræktun innandyra. LED-tækni er farin að skila miklum afköstum með talsvert minna rafmagni. Ég á von á að það verði mikil gróska og framþróun í svipaðri ræktun á Íslandi mjög fljótlega. Með þessu getum við ræktað mikið af því hráefni sem við bjóðum okkar gestum sjálf, í stað þess að það sé aðkeypt frá Húsavík, Reykjavík eða jafnvel erlendis frá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .