Spænska símfyrirtækið Telefonica, sem er það næst stærsta í Evrópu, hefur samþykkt að kaupa farsímafélagið O2 í Bretlandi. Samkvæmt frétt Economist er talið líklegt að ný símafyrirtækjabóla sé í uppsiglingu í ljósi endurnýjunar evrópskra símafyrirtækja á hlutafé í kjölfar erfiðs tímabils.

Að sögn Economist hefur fyrrum ríkissímafyrirtækið Telefonica til þessa einkum litið til Suður Ameríku í sókn sinni erlendis. Það er nú talið næst stærst evrópska símafélagið að markaðsvirði á eftir Vodafone. Breska félagið O2 er í sjöunda sæti á listanum.

Stefna Telefonica hefur til þessa verið að stækka á heimaslóðum og í Suður Ameríku. Nú hefur greinilega verið sveigt af þeirri stefnu. Hefur Telefonica gefið það út að félagið muni verja 17,7 milljörðum punda (31,5 milljörðum dollara) til að kaupa O2. Verðið sem um er rætt er 20% hærra en markaðsverðið var fyrir tilboðið.

Þá keypti Telefonica ráðandi hlut í tékkneska símafélaginu Cesky Telecom í júní fyrir 2,7 milljarða punda (3,3 milljarða dollara). Jók Telefonica síðan hlut sinn í því félagi í september í 69%.

Telefonica er líka sagt hafa augastað á KPN í Þýskalandi sem nýlega keypti stóran keppinaut sinn, símafélagið Telfort. Var reyndar búist við að Telfort og Deutsche Telekom myndu bjóða í O2.

Þá nefnir blaðið að margvísleg uppskipti hafi verið að eiga sér stað og séu í farvatninu. Í júlí keypti fyrrum ríkissímafélagið France Télécom 80% hlut í þriðja stærsta farsímafélagi Spánar á 8,5 milljarða punda.

Eins eru mörg fjárfestingafélög sögð líta hýru auga á danska símafélagið TDC. Segir blaðið einnig orðróm í gangi um að Deutsche Telekom og Swisscom hafi áhuga á danska félaginu. Þá er Swisscom einnig sagt ætla að bjóða 3 milljarða punda í fyrrum írska ríkissímafyrirtækið Eircom.