Keahotels eru við það að ganga frá samkomulagi um kaup á húsnæði sem notað verður til að reisa nýtt hótel í Þórunnartúni, beint á móti hinu nýopnaða FOSS hóteli. Þetta hefur Viðskiptablaðið eftir áreiðanlegum heimildum.

Fráfarandi eigendur húsnæðisins ætluðu að reisa þar hótel en drógu áform sín til baka eftir að bygging hófst. Keahotels mun á næstunni kaupa húsnæðið og ljúka smíði hótelsins, en stefnt er á að það opni um miðjan september. Kaupin munu líklega ganga í gegn á allra næstu dögum.

Nýjasta hótelið í Keafjölskyldunni hefur ekki enn fengið nafn. Hins vegar er ljóst að það verður þriggja stjörnu og telur alls 93 herbergi. Þar að auki verður á hótelinu veitingasalur og bar.

Uppfært þann 5.7.2015 klukkan 17:07.

Vegna upphaflegrar fréttar Viðskiptablaðsins um Keahótel í Þórunnartúni barst eftirfarandi tilkynning frá Magnúsi Einarssyni, eiganda Hótelbygginga ehf.:

Sem fulltrúi eigenda Þórunnartúns 4 sem reisa nú hótel í Þórunnartúni  langar mig að koma eftirfarandi á framfæri vegna fréttar VB í dag.

Áform eigenda um að reisa 93 herbergja hótel sem afhent verður rekstraraðila fullbúið 1. september 2015 eru með öllu óbreytt.

Ýmsir aðilar hafa sýnt því áhuga að kaupa rekstrarfélagið og fasteignina fullbúna. Viðræður við aðila hafa átt sér stað um aðkomu að rekstri og kaup á húseigninni fullbúinni.  Ekki hefur verið gengið frá neinu í þeim efnum, enn sem komið er.

Byggingaframkvæmdum miðar vel og eru um 80 manns að vinna við framkvæmdina á degi hverjum, enda styttist í opnun hótelsins. Hótelið verður vandað 3. stjörnu borgarhótel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .