Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur tekið jákvætt í fyrirspurn um að byggt verði hótel á miðsvæði Valla og að því er kemur fram á fréttavef Víkurfrétta mun bæjarstjórnin væntanlega samþykkja þetta á morgun. Um er að ræða erlenda fjárfesta í samvinnu við innlenda sem hafa í hyggju að byggja hótel með 80-120 hótelherbergjum á þremur hæðum auk morgunverðarsalar.

Í frétt Víkurfrétta kemur fram að hótel þetta verður hluti af hótelkeðjunni ETAP, en yfir 300 slík hótel eru um alla Evrópu. Þetta eru 1-2 stjörnu hótel sem snúast fyrst og fremst um að bjóða gistingu á lágu verði og þar af leiðandi verður öll þjónusta í lágmarki. Þeir sem að þessu standa telja mikilvægt að hægt sé að bjóða gistimöguleika af þessari stærðargráðu fyrir þá efnaminni þar sem algengt er að erlendir ferðamenn komi oft til landsins. Hótel af þessari tegund er næst fyrir ofan heimagistingu og er fyrst og fremst hugsað fyrir efnaminna fólk sem hefur ekki efni á að gista á fínni hótelum í miðbæ Reykjavíkur.

Fulltrúi fjárfestanna hér á landi segir í samtali við Víkurfréttir að gert sé ráð fyrir að hótel þetta verði orðið að veruleika eftir tvö ár ef tekst að ná byggingarkostnaði þess niður. Reynt hefur verið að fá lóð annars staðar á höfuðborgarsvæðinu en það hafi gengið illa.

Hafnarfjarðarbær auglýsti fyrir skömmu lausar til umsóknar lóðir á Völlum, í Hellnahrauni og við Kaplaskeið. Auglýstur var þriðji áfangi Valla, þjónustu- og íbúðahverfi vestan Grísaness og sunnan Reykjanesbrautar. Þessi áfangi er þjónustu- og miðhverfi svæðisins og inniheldur íbúðir, námsmannaíbúðir, leikskóla, sundlaug, kirkju, verslun og þjónustu. Einnig voru auglýstar lausar lóðir á miðsvæði Valla fyrir skrifstofu- verslunar- og þjónustuhúsnæði. Í boði eru stórar lóðir sem auðvelda fyrirtækjum að horfa til framtíðar með uppbyggingaráform. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð skrifstofu- verslunar og þjónustubygginga, tveggja til sex hæða. Stærð lóða er frá 1700 fm til 3600 fm. Við Kaplaskeið 18 var ein hestahúsalóð laus og á iðnarsvæðinu í Hellnahrauni sunnan Reykjanesbrautar voru auglýstar lausar nokkrar lóðir fyrir iðnaðarhúsnæði.