„Mér sýnist í engum atriðum sé verið að bæta rekstrarskilyrði sjávarútvegsins en í flestum atriðum verið að veikja þessi rekstrarskilyrð," sagði Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við fréttastofu Sjónvarpsins í kvöld.

Hann sagði að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við nýgerða kjarasamninga, þar sem kom fram að ná eigi frekari sáttum um útfærslu á kvótakerfinu, hefði ekki verið gefin út í loftið.

Vilhjálmur sagði nauðsynlegt að breyta fyrirliggjandi kvótafrumvarpi því annars kynnu forsendur kjarasamninga að bresta. Samkvæmt fyrirvörum sem settir voru við kjarasamninga þurfa stjórnvaldsákvarðanir að ná fram að ganga fyrir 22. júní næstkomandi.

Vilhjálmur sagði að nýtt kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar væri ekki líklegt til að tryggja slík skilyrði næðu fram að ganga. SA muni beita sér fyrir breytingum á kvótafrumvarpinu.