Almenna leigufélagið er nýtt félag sem tekið hefur til starfa. Félagið hefur umsjón með rekstri tæplega 400 leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu og er markmið þess að gera leigu að raunhæfum langtímakosti á húsnæðismarkaði, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Fram kemur í tilkynningunni að félagið hyggist bjóða upp á langtímaleigusamninga til allt að þriggja ára í seinn, þar sem viðskiptavinir muni njóta húsnæðisöryggis og stöðugleika á leigumarkaði. Einnig muni leigutakar njóta sveigjanleika komi upp sú staða að þeir þurfi að stækka eða minnka við sig. Í slíkum tilfellum verði reynt að finna íbúð fyrir leigutaka í heppilegri stærð, innan sama hverfis, til að röskun á högum verði sem minnst.

Almenna leigufélagið er í samstarfi við Securitas þar sem boðið er upp á sólarhringsvakt alla daga ársins komi upp neyðartilvik á borð við rafmagnsbilun eða alvarlegan leka. Einnig mun félagið bjóða stærri fjárfestum á íbúðamarkaði þjónustu í umsjón leiguíbúða, svo sem auglýsingu íbúða, vali á leigutökum, gerð leigusamninga og umsjón með innheimtu.

Almenna leigufélagið tekur við umsýslu leiguíbúða sem áður voru í umsjón Leigufélags Íslands.