Sjávarafl markaðshús er nýtt fyrirtæki í sjávarútvegi, sem sérhæfir sig í útgáfu og markaðsráðgjöf innan sjávarútvegs. Sjávarafl mun þjónusta fyrirtæki í sjávarútvegi við gerð heimasíðna, fréttatilkynninga, auglýsinga, kynningarefnis, útgáfu og fleira.

Eigendur Sjávarafls eru Sædís Eva Birgisdóttir og Hildur Sif Kristborgardóttir, sem einnig er formaður kvenna í sjávarútvegi. Skrifstofa fyrirtækisins er í húsi sjávarklasans en þar hafa þær Sædís og Hildur unnið síðustu tvö árin í hinum ýmsu verkefnum, svosem við útgáfu Útvegsblaðsins. Auk þeirra munu blaðamenn, ráðgjafar, hönnuðir, ljósmyndarar og fleiri starfa með Sjávarafli. Fyrirtækið mun í haust gefa út samnefnt blað sem mun síðan koma út sex sinnum á ári.

Undirtektirnar mjög góðar

Hildur, sem hefur lengi unnið við störf tengd sjávarútvegi, segist í samtali við Viðskiptablaðið lengi hafa stefnt að því koma á fót markaðshúsi í sjávarútvegi. „Um miðjan febrúar fengum við þessa hugmynd að stofna okkar eigið fyrirtæki og gera þetta að markaðs- og útgáfuhúsi. Fyrir tveimur mánuðum byrjuðum við svo að vinna 100% við þetta.“ Nú er starfsemin komin á fullt og fer vel af stað. „Undirtektirnar hafa verið mjög góðar, það er vöntun á þessu. Fólk sem er í þessum geira vill leita til fólks sem hefur skilning á sjávarútvegi,“ segir Hildur.

Að sögn Hildar mun Sjávarafl þjónusta alls konar fyrirtæki. „Við erum að fara að þjónusta öll fyrirtæki i sjávarútvegi, hvort sem það eru útgerðir, fyrirtæki sem sjá um pakkningar, prentun eða hvað sem er.“ Hún bætir við að sjávarútvegur, sem sé undirstöðuatvinnugrein á Íslandi, teygi anga sína víða og fjölbreytnin sé mikil. Hún segir að þreifingar við samstarfsaðila séu komnar af stað þó ekki sé tímabært að gefa neitt upp í þeim efnum.