*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 4. júlí 2020 18:01

Nýtt markaðstorg fyrir tækjabúnað

Þeir Sindri Jóhannsson og Arnar Már Eyfells hafa sett upp leiguvef sem ber nafnið creativemarket.is, stór uppfærsla er væntanleg bráðlega.

Alexander Giess
Arnar Már Eyfells og Sindri Jóhannsson, stofnendur Creative Market.
Hlynur Hólm

Sindri Jóhannsson og Arnar Már Eyfells, sem þekkst hafa síðan þeir voru saman í nemendafélagi í framhaldsskóla, hafa nýlega sett upp leiguvef sem ber nafnið creativemarket.is. Markmið vefsins er að skapa markaðstorg fyrir hinn ýmsa tækjabúnað og þannig auðvelda fólki og fyrirtækjum að leigja og lána út slíkan búnað. Sindri segir þjónustuna vera nýjung hér á landi og að viðtökur hafi verið góðar. Vefsíðan er nú þegar komin í loftið en stór uppfærsla er væntanleg bráðlega.

„Creative Market er nýr tækjaleiguvefur sem hefur svipaða virkni og fólk þekkir frá Airbnb. Vefurinn er markaðstorg fyrir skapandi græjur svo sem myndavélar, dróna, ljósabúnað og önnur sambærileg tæki. Hugmyndin, sem spratt upp í heimsfaraldrinum, byrjaði sem hliðarverkefni á auglýsingastofu okkar Arnars Más sem heitir Ketchup Creative.

Auglýsingastofan á töluvert mikið af græjum sem við höfum verið að leigja út og átti Creative Market að vera netverslun fyrir Ketchup, sjá því um bókanir og birgðastöðu fyrir félagið. Í kjölfarið þróaðist verkefnið hins vegar í markaðstorg fyrir hvern sem er,“ segir Sindri.

Rúm vika er síðan vefsíðan var sett á laggirnar, en að sögn Sindra hefur hugmyndin fengið ótrúlega góðar viðtökur á þessum stutta tíma. „Til að byrja með deildum við síðunni á lokuðum hópum á Facebook með kvikmyndagerðarfólki og ljósmyndafólki. Þar fengum við fáránlega góðar viðtökur og margar góðar ábendingar um hvað væri hægt að gera betur,“ segir Sindri. Þeir Sindri og Arnar Már munu reka síðuna samhliða auglýsingastofu sinni, Ketchup Creative, sem þeir stofnuðu árið 2018. Í dag vinna 11 starfsmenn hjá stofunni og velti hún rúmlega 110 milljónum íslenskra króna á síðasta ári.

„Fyllum síðuna af vörum áður en við tökum þóknun“

Þó að viðtökurnar hafi verið góðar er nokkuð óljóst hve mikið umfang verður á síðu Creative Market en til að byrja með verður engin þóknun tekin fyrir þjónustuna. „Við ætlum fyrst að koma þessu í gang, fylla síðuna af vörum áður en við förum að taka þóknun fyrir þjónustuna,“ segir Sindri.

Í því samhengi bendir hann á að sambærilegar vefsíður erlendis hafi verið að taka um 5-10% af leiguverði í þóknun. Stefna Creative Market er að vera í lægri kantinum, jafnvel undir 5% sem Sindri telur raunhæft enda geta hver og ein viðskipti numið talsvert hárri upphæð.

„Í þessum bransa nemur hver og ein leiga talsvert hárri upphæð. Við ættum því að geta verið heldur fljótir að fá gott tekjustreymi, þrátt fyrir að vera með nokkuð lága þóknun, sem mun jafnvel vera undir 5%.“ Aðspurður segir Sindri að tækjaleigur á Íslandi hafi sýnt hugmyndinni mikinn áhuga og myndi hún vera liður í að færa rekstur þeirra að meira leyti á netið.

„Umsvifamiklar tækjaleigur hafa sýnt okkur mikinn áhuga en sá bransi hefur verið mjög lengi að færa sig yfir í netverslun. Við sjáum því fram á að geta farið í samstarf við allar helstu tækjaleigurnar á Íslandi þar sem þær myndu nýta vef okkar til þess að auglýsa vörurnar sínar. Við erum síðan að stefna á stóra uppfærslu á næstunni þar sem við munum bjóða upp á tryggingu á búnaðinum beint í gegnum vefinn. Eins og er fellur öll tryggingarábyrgð á eiganda græjunnar. Þetta er einmitt uppfærsla sem við ætlum að vinna að þegar við erum komnir úr þessu prufukeyrslu ferli, “ segir Sindri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.