Flugfélagið Air Atlanta hefur látið teikna nýtt merki félagsins í tilefni af sameiningu flugfélaganna Íslandsflug og Air Atlanta frá og með næstu áramótum. Í greinargerð með merkinu segir m.a. að grunnflötur merkisins er hnattlaga og vísar beint til alþjóðlegrar starfsemi félagsins. A-ið er upphafsstafurinn í nafni félagsins og blár litur himins er skírskotun til flugsins. Ómar Benediktsson, verðandi forstjóri hins sameinaða félags, segir í tilkynningu félagsins að merkið sé sameiningartákn allra starfsmanna félagsins. ?Merkið er nútímalegt og lýsir vel þeim styrkleika, gæðum og sveigjanleika sem einkennir nýtt og ferskt Air Atlanta." Auglýsingastofan Himinn og haf teiknaði merkið.

Air Atlanta leigir flugvélar ásamt áhöfn og annast viðhald og tryggingar. Flugfélagið er stærst sinnar tegundar í heiminum, sama hvort miðað er við stærð flugflota eða fjölda útleigðra tíma. Air Atlanta verður frá og með næstu áramótum dótturfélag eignarhaldsfyrirtækisins Avion Group. Starfsmenn Avion verða tæplega 3,200. Boeing og Airbus flugflotinn mun telja samtals 63 vélar. Starfsstöðvar Avion Group verða yfir 20 í öllum byggðum heimsálfum veraldar.