Samkvæmt nýrri skýrslu OECD kemur fram að beinar erlendar fjárfestingar Íslendinga erlendis á síðasta ári námu 420 milljörðum króna eða um 42% af vergri landsframleiðslu. Greining KB banka greinir frá þessu í Hálffimm fréttum sínum. Þetta er aukning upp á tæp 250% frá árinu 2004 og hefur bein erlend fjárfesting Íslendinga fimmtugfaldast frá árinu 1999 og hefur aldrei verið meiri.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að athyglisvert sé að þrátt fyrir að Ísland sé minnsta hagkerfið innan OECD þá fjárfesti Íslendingar meira erlendis en Norðmenn og Finnar. Einnig munar um að Íslendingar keyptu talsvert af erlendum verðbréfum árið 2005 og námu hrein kaup á þeim um 123,5 milljörðum króna og höfðu þau aldrei verið meiri á einstaka ári. Tekið saman var þá hreint útflæði eða fjárfestingar Íslendinga erlendis að frádregnum fjárfestingum erlendra aðila hér á landi um 400 milljarðar á árinu 2005, sem er met.