Stjórnarandstaðan í Suður-Kóreu sló heimsmet í málþófi þegar hún reyndi að koma í veg fyrir að þingmeirihlutinn samþykkti lagafrumvarp sem er ætlað að berjast gegn hryðjuverkum yrði samþykkt.

Stjórnarandstaðan sagði að frumvarpið ógnaði persónuréttindum borgaranna, en það veitir eftirlitsstofnunum ríkisins víðtækar heimildir til að afla upplýsinga um borgarana á þeim sem stofnanirnar teldu að ógnuðu allsherjarreglu eða öryggi ríkisins.

Málþófið hófst þann 23. febrúar sl. en stjórnarandstaðan talaði í alls 192 klukkustundir. Meðal þess sem fór fram í ræðustól voru upplestrar á fræðigreinum um réttindi borgara, lestur á ummælum um frumvarpið á netinu auk þess sem bók George Orwell, 1984 var lesin í heild sinni. Lengsta einstaka ræðan var haldin af Jung Cheong-rae en ræðan hans var alls 11 klukkustundir og 39 mínútur.

Stjórnarandstaðan áætlaði að halda umræðum gangandi þar til kæmi að þinglokum þann 10 mars nk. Gagnrýnin á málþófin fór þó vaxandi og almenningsálitið var ekki með þeim, m.a. vegna þess að málþófið hefði komið í veg fyrir samþykkt frumvaps sem átti að tryggja mannréttindi. BBC greinir frá.

Til samanburðar má skoða að lengstu umræður á Alþingi voru við samþykkt síðustu fjárlaga, en þá var alls talað í rúmar 87 klukkustundir, en langflestar ræðunar voru haldnar af stjórnarandstöðunni. Lengsta ræða sem flutt hefur verið á Alþingi var flutt af Jóhönnu Sigurðardóttir árið 1998 en hún var rúmlega 10 klukkustunda löng.

Stuttu eftir að Rannsóknarskýrsla Alþingis um orsök og aðdraganda hruns íslensku bankanna kom úr þá var hún lesin upp í heild sinni af leikurum Borgarleikhússins. Lestur skýrslunnar í heild sinni tók um 146 klukkustundir, eða 76% af þeim tíma sem málþóf stjórnarandstöðunnar í Suður-Kóreu tók.