Nýskráðum hluta- og einkahlutafélögum fjölgaði um 15% á síðasta ári en alls voru nýskráningar 3.674 á síðasta ári og hafa aldrei verið fleiri á einu ári. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru rúmlega 28 þúsund hluta- og einkahlutafélög skráð  í árslok 2007 og þar af greiddi tæplega helmingur þeirra laun. Suðurnesin suðupottur

Í Morgunkorni Glitnis segir: Eins og við var að búast hafa langflest hinna nýskráðu félaga aðsetur í Reykjavík eða alls 72%. Næstflestar skráningar urðu hinsvegar á Suðurnesjum en þar skráðu sig til leiks alls 257 ný hluta- og einkahlutafélög sem nemur 7% af heildarnýskráningum. Hlutfallslega fjölgaði nýskráningum á Suðurnesjum um 41% á milli ára. Þetta þarf ekki að koma á óvart í ljósi þeirrar grósku sem á sér stað á Suðurnesjum um þessar mundir, en brottför varnarliðsins hefur opnað fyrir fjölda möguleika varðandi nýtingu á herstöðinni sem Suðurnesjamenn hafa verið duglegir að nýta sér.

Húsbyggingar, hárgreiðsla og heildsölur Nýskráningar á síðasta ári urðu flestar í rekstri eignarhaldsfélaga. Samtals fellur  21,5% af heildarfjölda nýskráninga undir þá atvinnugrein og hefur fjöldi nýskráningum í rekstri af þessu tagi fimmfaldast á síðustu fjórum árum. Næst mesta aukningin á síðasta ári er í starfsemi tengdri leigu á atvinnuhúsnæði eða tæplega 9,3%. Húsbyggingar og heildsölustarfsemi fylgir í kjölfarið með um það bil 9% hlutdeild að heildarfjölda nýskráninga. Nýskráningar félaga í smábátaútgerð voru 121 á síðasta ári eða sem nemur 3,3% af heild. Athygli vekur að fjöldi nýskráninga í smábátaútgerð hefur nánast staðið í stað undanfarin fjögur ár. Nýskráningum félaga sem starfa að hárgreiðslu og snyrtingu hefur hins vegar fjölgað um helming undanfarin fjögur ár og voru samtals 39 ný hluta- og einkahlutafélög skráð á síðasta ári sem snúa að þessháttar starfsemi. Hárgreiðsla er auk þess ein þriggja atvinnugreina (hinar tvær eru smábátaútgerð og leiga á vinnuvélum) þar sem meira en helmingur nýskráninga síðasta árs var á landsbyggðinni, eins og segir í Morgunkorninu.