Aðalfundur Símans í dag samþykkti að fjarskiptanet fyrirtækisins verði skilið frá annarri starfsemi. Hluthafar Símans hf. hafa um leið samþykkt tillögu um að stofnað verði sérstakt móðurfélag innan Símasamstæðunnar, Skipti hf. Gert er ráð fyrir að móðurfélagið verði skráð á markað fyrir árslok 2007.

Í frétt félagsins kemur fram að skipting Símans hf. er liður í skipulagsbreytingu í samstæðu Símans hf. sem gengur út á að hver rekstareining, þ.e. Síminn, fjarskiptanet og fasteignir verði rekin sem dótturfyrirtæki í eigu Skipta, sem verður móðurfélag Símasamstæðunnar sem ekki mun hafa annan rekstur með höndum en þeim sem fylgir eignarhaldi á öðrum félögum, og að koma fram fyrir samstæðuna sem samnefnari.

Skipti hf. á nú 95% í Símanum hf., Mílu ehf. og Fasteignafélaginu Jörfa ehf. en 100% í öðrum félögum sem er meðal annars ANZA hf, Tæknivörur ehf, Radiomiðun, Síríus IT og Skjárinn miðlar ehf.
Hluthafar Símans eignast hlutabréf í Skiptum hf. og láta í staðinn 95% hlutabréfa sinna í Símanum hf. yfir til Skipta hf. segir í fréttinni.

Eftir skiptinguna munu hluthafar til viðbótar við 95% eign sína í Skiptum hf. eiga áfram 5% í Símanum hf., Mílu ehf., og Fasteignafélaginu Jörfa ehf. Sömu hluthafar eru fyrir og eftir breytingu og virði eignarhlutanna nákvæmlega jafn mikið fyrir og eftir skiptinguna.