Væntanlegur tölvuleikur CCP, EVE Valkyrie, er meðal þess sem kynnt hefur verið og verður kynnt á spilararáðstefnu EVE Online, Fanfest, sem hófst í dag og stendur fram á laugardag.

Valkyrie er byggður fyrir sýndarveruleikatækið Oculus, sem er nú í eigu Facebook. Tækið er eins konar hjálmur sem spilari setur upp og gerir það að verkum að upplifun spilarans á leiknum verður mun raunverulegri.

Myndbandið sýnir stutta orrustu í geimnum, en spilarinn fer með stjórn lítillar orrustuvélar í umfangsmikilli orrustu. Unnendur vísindaskáldsöguþáttanna Battlestar Galactica kannast kannski við kvenmannsröddina í myndbandinu, en leikkkonan Katie Sackoff ljær leiknum rödd sína. Sackhoff lék flugmanninn Starbuck í þáttunum. Myndbandið úr tölvuleiknum.