Alcoa tilkynnti í dag um nafn á þeim hluta fyrirtækisins sem mun taka við virðisaukandi framleiðslu Alcoa. Félagið tilkynnti á síðasta ári að það ætlaði að skipta fyrirtækinu í tvö félög, en bæði félög verða á lista Fortune yfir 500 öflugustu fyrirtæki Bandaríkjanna.

Nýja fyrirtækið mun heita Arconic en í tilkynningu frá félaginu segir:

„Nýja nafnið, Arconic, dregur saman hefðbundinn grunn Alcoa og nýsköpun framtíðarinnar. Bókstafurinn A kemur úr nafni Alcoa og „Arc“ táknar hringboga framfara og áframhaldandi þróun í þágu viðskiptavina, hluthafa og samfélaga. Síðari hluti nafnsins, „-conic“ tengist enska orðinu „iconic“ sem merkir m.a. tákn og það að „vera þekktur“ enda hefur fyrirtækið í áraraðir verið þekkt fyrir að þróa einstakar verkfræðilausnir og vörur og beina stöðugt augunum að næstu byltingarkenndu nýsköpuninni.

Bæði fyrirtækin, Arconic og Alcoa, verða með heimilisfesti í Bandaríkjunum og skráð í Kauphöllinni í New York, Arconic sem ARNC og Alcoa sem AA.

Alcoa mun sinna þeirri starfsemi sem nú tilheyrir Alcoa Global Primary Products, sem eru framleiðsla á báxíti, súráli, áli, málmsteypu og orku. Arconic mun taka yfir þá starfsemi sem nú tilheyrir virðisaukandi starfsemi Alcoa, sem eru valsaðar framleiðsluvörur, margvíslegar verkfræðilausnir auk lausna fyrir alþjóðlegan samgöngu- og byggingariðnað.