Nýtt norskt lággjaldaflugfélag, Norse Atlantic Airways, ku vera í pípunum. Samkvæmt frétt Reuters hyggst umrætt félag fylla í skarð Norwegian, sem hætti að fljúga yfir hafið milli Evrópu og Norður-Ameríku skömmu eftir að heimsfaraldurinn skall á, en félagið hafði fyrir það átt í talsverðum rekstrarerfiðleikum.

Bjoern Kjos, stofnandi og fyrrverandi forstjóri Norwegian, á 15% hlut í nýja flugfélaginu en félagið er að meginhluta í eigu Bjoern Tore Larsen, sem verður forstjóri flugfélagsins.

Lággjaldaflugfélagið stefnir á að fljúga frá áfangastöðum í Bandaríkjunum líkt og New York, Los Angeles og Miami til evrópskra borga á borð við London, Parísar og Osló. Síðar meir komi einnig til greina að hefja flug til Asíu.

Félagið stefnir á að hefja starfsemi á síðari hluta árs auk þess sem það stefnir á skráningu í Euronext vaxtarmarkaðinn í Osló í næsta mánuði.

Norse Atlantic hyggst láta flugvélaflota sinn samanstanda af Boeing 787 Dreamliner þotum. Ku félagið þegar hafa tryggt sér nokkrar slíkar þotur á leigu „á hagstæðum kjörum" en ekki er gefið upp hve margar þotur er um að ræða.