Albert Bourla, forstjóri Pfizer, segir að bóluefni gegn Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar verði tilbúið í mars á þessu ári. Þetta kemur fram í frétt CNBC . Hann segir að framleiðsla bóluefnisins sé nú þegar hafin.

Bourla vonast eftir því að nýja bóluefnið geti veitt betri vörn gegn smitum, en samkvæmt gögnum frá breskum heilbrigðisyfirvöldum veita bóluefni Pfizer og Moderna einungis 10% vörn gegn smiti af völdum Ómíkron-afbrigðisins. Hins vegar eiga tveir skammtar af fyrrnefndum bóluefnum að veita góða vörn gegn alvarlegum veikindum, að því er kemur fram í gögnum heilbrigðisyfirvalda Bretlands. Bourla bætir við að hann sé ekki sannfærður um að þörf sé á fjórða bóluefnaskammtinum, en í Ísrael stendur fjórði skammturinn nú til boða fyrir fólk eldra en 60 ára eða með undirliggjandi sjúkdóma, auk heilbrigðisstarfsfólks.

Skiptar skoðanir eru á nauðsyn nýs bóluefnis gegn Ómíkrón-afbrigðinu. Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, sagði í desembermánuði síðastliðnum að engin þörf væri á örvunarskammti sérstaklega gegn Ómíkrón-afbrigðinu og bendi á að almennu örvunarskammtarnir veiti góða vörn gegn nýja afbrigðinu.

Stephane Bancel, forstjóri Moderna, hefur einnig gefið út að fyrirtækið sé að vinna í örvunarskammti sérstaklega gegn Ómíkrón-afbrigðinu og á bóluefnið að vera tilbúið í haust á þessu ári.