Íslandspóstur opnar nýtt pósthús að Smiðjuvöllum 30, Akranesi, og er það fjórða nýja pósthúsið á landsbyggðinni sem Íslandspóstur byggir frá grunni, á eftir Húsavík, Reyðarfirði og Stykkishólmi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspóst.

„Nýju pósthúsin munu auka til muna þjónustu við viðskiptavini og eru liður í að nútímavæða póstþjónustuna,“ segir í tilkynningunni.

Skóflustungan að nýja pósthúsinu var tekin fyrir ári síðan eða þann 27.apríl 2007.

„Í nýju húsnæði er boðið upp á aukna þjónustu til að koma til móts við breyttar þarfir viðskiptavina.  Hér er meðal annars átt við sölu á ýmiskonar vörum eins og skrifstofuvörum, ritföngum, pappír, geisladiskum, kortum og öðru sem mikilvægt er fyrirtækjum, einstaklingum og ferðalöngum,“ segir í tilkynningunni.

Í nýjum pósthúsum eru  „Samskiptaborð“, sem eru nýjung í þjónustu Póstsins. Þar er í boði netaðgangur, mögulegt er að prenta út gögn og ljósmyndir, skanna og ljósrita svo eitthvað sé nefnt. Einnig gefst viðskiptavinum kostur á að panta aðra þjónustu Samskipta á pósthúsunum og fá senda um hæl.

Í tilefni af opnuninni mun Pósturinn bjóða til hátíðar laugardaginn 17. maí frá kl. 13-15 í nýja pósthúsinu að Smiðjuvöllum 30.  Þar verður boðið upp á grillaðar pylsur, skemmtiatriði og leiktæki fyrir börnin auk þess sem gestum verður boðið að skoða nýja húsnæðið.