Greint hefur verið frá stofnun nýs fyrirtækis á sviði fjármálaráðgjafar sem mun helga sig ráðgjöf til alþjóðlegra fyrirtækja í sjávarútvegi og jarðvarma. Félagið heitir Capacent Glacier og er að helmingi í eigu Capacent og að helmingi í eigu stjórnenda.

Undir merkjum félagsins hefur þekking starfsmanna verið sameinuð við ráðgjafarfyrirtækin Glacier Partners í Bandaríkjunum og Pritchard Capital, sem er sérhæft verðbréfafyrirtæki á orkusviði. Capacent Glacier er með 12 starfsmenn á Íslandi og Glacier Partners er með sex starfsmenn í Bandaríkjunum að því er segir í tilkynningu.

Í tilkynningu kemur fram að Capacent Glacier veitir víðtæka fjármálaráðgjöf á innlendum markaði, m.a. ráðgjöf við kaup og sölu fyrirtækja, fjárhagslega endurskipulagningu, verðmöt og virðisrýrnunarpróf. Á alþjóðlegum vettvangi einbeitir félagið sér að fyrirtækjaráðgjöf á sviði sjávarútvegs og jarðvarma.

Magnús Bjarnason, sem bar ábyrgð á starfsemi Glitnis á sviði endurnýjanlegrar orku og sjávarútvegs, leiðir félagið og Sigurður Harðarson, sem veitt hefur fjármálaráðgjöf Capacent forstöðu, er framkvæmdastjóri rekstrar. Jón Garðar Guðmundsson ber ábyrgð á sjávarútvegsmálum og Sigurður Valgeir Guðjónsson leiðir fyrirtækjaráðgjöf félagsins.

Starfsmenn Capacent Glacier eru 18 talsins, 12 á Íslandi og sex hjá Glacier Partners í Bandaríkjunum, þar á meðal Timothy Spanos, sem hefur 20 ára reynslu frá Bank of America, Sigurður Jón Björnsson, sem tók þátt í uppbyggingu Framtaks fjárfestingabanka og Ignacio Kleiman, sem stafað hefur fyrir Rabo Bank, Deutche Bank og JP Morgan.