Fréttastofa Sjónvarpsins greindi frá því í gær að fyrirhugað er að stofna rekstrarfélag um mjólkuriðnað sem mun samanstanda af MS, KS og Norðurmjólk. Þessar hugmyndir voru kynntar á fundi fyrir starfsmönnum og hagsmunaaðilum síðastliðinn föstudag. Búist er við að formleg tilkynning um málið komi út seinna í þessari viku en áætlað er að breytingin muni ganga um garð um áramót.

Nýtt rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins mun sjá um sölu, dreifingu og mjólkurframleiðslu á langstærstum hluta landsins. MS verður stærsti eigandi rekstrarfélagsins með 72% hlut, KS með 15% og Norðurmjólk með 13%. Fyrirtækið MS er sameinað fyrirtæki Mjólkursamsölunnar og Mjólkurbús Flóamanna, Norðurmjólk er í eigu kúabænda í Eyjafirði og Mjólkursamlag KS er á Sauðárkróki. Á sjötta hundrað mans starfa hjá fyrirtækjunum þremur.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar til lækkunar á matvælaverði sem kynnt var á mánudag kom fram að samtöku afurðastöðva í mjólkuriðnaði hefðu ákveðið raunlækkun á heildsöluverði mjólkurvara næstu 12 mánuði en því verði náð með óbreyttu verði á þessum tíma því sama og ákveðið var um síðustu áramót. Augljóst er að til þess megi koma þurfi mjólkuriðnaður að hagræða í rekstri og er það tilgangurinn með þessum breytingum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru áætlanir um hagræðingu langt á veg komnar. Ljóst er að framleiðslueiningar munu flytjast til. Höfuðstöðvar sölu og dreifingar verða í Reykjavík en framleiðsla og mjólkurpökkun verður færð frá höfuðborginni.

Samkeppniseftirlitið hefur gert athugasemndir við sameininguna en stofnun rekstrarfélagsins er ekki háð samþykki Samkeppniseftirlitsins því fyrirtækin eru undanþegin samkeppnislögum og heyra undir búvörulög.