Meirihluti íbúa Ásbrúar er námsmenn, en á svæðinu er stærsti háskólagarður Íslands og þar er starfrækt menntafyrirtækið Keilir. Svæðið getur verið hagstæður kostur fyrir námsmenn vegna lágs leiguverðs. Leiga á stúdíóíbúð kostar til að mynda 55.000 krónur á mánuði og fást tveggja til fjögurra herbergja íbúðir fyrir 63.000 til 121.000 krónur á mánuði. Á Keili er boðið upp á nám við Háskólabrú, Flugakademíuna, Íþróttaakademíuna og tæknifræði.

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, hefur unnið hjá Keili alveg frá byrjun. „Þegar varnarliðið fór losnaði svæði sem áður hýsti 6.000 manns, heilt þorp með öllum þeim innviðum sem fylgir þeirri stærð að þorpi. Spurningin var hvað ætti að gera við þennan draugabæ og það komu upp ýmsar hugmyndir. Hugsunin var sú að byggja upp þekkingarþorp, til þess þurfti skóla og því stofnuðum við Keili. Við ákváðum að stofna öðruvísi skóla sem myndi reyna að svara þörfum atvinnulífsins,“ segir Hjálmar.

Háskólabrú hefur slegið í gegn hjá Keili en það er háskólafrumgreinadeild sem gerir nemendum kleift að ljúka stúdentsprófi á einu ári og hefja svo háskólanám að því loknu. Á bak við háskólabrú stendur Háskóli Íslands en námsbrautir frumgreinadeildarinnar voru lagaðar að kröfum deilda Háskóla Íslands. „Það er kannski það sem er mest gefandi fyrir okkur sem skólafólk. Það er svo gaman að sjá fólk sem hefur haft mismunandi reynslu af skólakerfinu að koma og blómstra og flestir þeirra sem hafa útskrifast af háskólabrú halda svo áfram námi í ýmsum háskólum og hafa plummað sig vel.“

Nánar er fjallað um málið í Reykjanes blaði Viðskiptablaðsins sem kom út 17. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð .