Lyfjafyrirtækið Alvogen hefur markaðssett nýja samheitalyfjaútgáfu frumlyfsins Infliximab (Remicade) í Lettlandi og Króatíu. Alvogen er fyrst lyfjafyrirtækja á markað með lyfið sem einnig verður markaðssett í Búlgaríu, Litháen, Póllandi, Ungverjalandi og Rúmeníu.

Inflectra er samheitaútgáfa frumlyfsins Remicade sem m.a. er notað við meðhöndlun á ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum, s.s. iktsýki, hryggikt og psoriasis.   Árleg sala frumlyfsins (Infliximab) í Evrópu er um 2 milljarðar bandaríkjadala. Búist er við því að Inflectra verði í hópi söluhæstu lyfja Alvogen í Mið- og Austur Evrópu á þessu ári.

Á undanförnum árum hefur Alvogen aukið umsvif sín á sviði líftæknilyfja og markaðssett slík lyf í Mið- og Austur Evrópu í samstarfi við bandaríska lyfjafyrirtækið Hospira. Alvogen hóf byggingu Hátækniseturs innan Vísindagarða Háskóla Íslands í Reykjavík í nóvember á síðasta ári en þar mun fara fram þróun og framleiðsla á líftæknilyfjum Alvogen. Áætlað er að framkvæmdum ljúki innan tveggja ára og munu um 400 ársverk skapast á framkvæmdatímanum. Þá er búist við að starfsemin skapi um 200 ný framtíðarstörf hjá Alvogen á næstu árum.