Omeprazol hylki frá Actavis, magalyf sem ætlað er við tilfallandi brjóstsviða og súru bakflæði er nú fáanlegt án lyfseðils, þ.e.a.s. 28 stk af 20mg en aðrar pakkningastærðir eru lyfseðilsskyldar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Actavis í dag en hylkin komu á markað á Íslandi í byrjun febrúar.

Í tilkynningunni kemur fram að lyfið er í sýruþolnum hylkjum, 10mg, 20mg og 40mg.

Hægt að spara 300 milljónir með samheitalyfi

Þá er greint frá því í tilkynningunni að í fréttabréfi lyfjadeildar Tryggingastofnunar í febrúar komi fram að kostnaður Tryggingastofnunar vegna þessa lyfjaflokks hafi numið 812 milljónum króna á árinu 2008.

Í fréttabréfinu segir að notkun samheitalyfsins omeprazol sé verulega mikið minni hér á landi en t.d. í Stokkhólmi. Hér sé notað mun meira af dýrari frumlyfjum með sambærilega virkni.

„Í fréttabréfinu kemur jafnframt fram að ef notkunin væri með svipuðum hætti á Íslandi og í Stokkhólmi væri hægt að lækka lyfjakostnað íslenskra sjúkratrygginga um 300 milljónir kr. á ári,“ segir í tilkynningunni.