Eimskip kynnti í vikunni umfangsmiklar breytingar á siglingakerfi félagsins. Helstu breytingarnar eru m.a. vikulegar strandsiglingar með beinni tengingu við Bretland og meginland Evrópu og styttri siglingatími til og frá Bandaríkjunum. Skip félagsins munu koma vikulega við í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri og Reyðarfirði, sömu höfnum og innanríkisráðuneytið fyrirhugar að bjóða út sem fastar viðkomuhafnir í útboði á strandsiglingum.

Þá verður ný þjónusta fyrir ferskan fisk frá Færeyjum, því með vikulegum siglingum á nýrri siglingaleið með viðkomu í Færeyjum á hverjum mánudegi gefst Færeyingum kostur á að flytja ferskan fisk í gámum til dreifingar á Bretlandseyjum á miðvikudegi. Auk viðkomu í Þórshöfn verður komið við í Vágur á Suðurey þar sem mikill vöxtur hefur verið í vinnslu á uppsjávarfiski, að því er segir í tilkynningu frá Eimskipi.

Einnig á þjónusta félagsins við vaxandi olíuiðnað á Norðurslóðum að eflasst með tengingu við Skotland sem er miðstöð olíuiðnaðarins í Bretlandi. Í tilkynningu segir að þannig skapist tækifæri og beinar tengingar fyrir norður- og austurhluta Íslands við uppbyggingu Íslendinga á þjónustu við væntanlegan olíuiðnað á Drekasvæðinu og í grænlenskri lögsögu. Tengingin sé jafnframt mikilvæg fyrir frekari uppbyggingu félagsins á þjónustu við olíuiðnaðinn í Færeyjum og á Nýfundnalandi. Eimskip býður þegar uppá vikulegar siglingar frá Aberdeen til Noregs með frystiskipum félagsins.