Fjárfestar hafa alls lagt um 300 milljónir króna í OZ ehf, sem vinnur að nýrri háskerpu sjónvarpslausn fyrir iPad, iPod, iPhone og Apple TV. Fjármagnið verður notað í vöruþróun hér á landi, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Lausnin gerir fólki kleift að að stýra sjálft dagskrá sinni, taka upp uppáhaldsefni til einkanota, sem geymt er á tölvuskýi, horft á beina útsendingu þar sem hægt er að gera hlé og spóla til baka. Allt er þetta óháð staðsetningu notandans.

Haft er eftir Guðjóni Má Guðjónssyni, eins aðstandenda OZ, að kerfið sé ný nálgun á sjónvarpi. Með tækninni breytist sjónvarpsáhorf yfir í nýja tegund upplifunar til að mæta þörfum áhorfenda um aukið frelsi og meiri sveigjanleika.

Fyrst um sinn verður horft til íslenska markaðarins en næstu skref fyrirtækisins verða á alþjóðamarkaði. Í tilkynningunni kemur fram að samningaviðræður eru hafnar við erlendar efnisveitur og framleiðendur tölvu- og raftækja til að tryggja útbreiðslu.

Prófanir á kerfinu hafa staðið yfir síðustu mánuði og mun árangurinn hafa verið góður. Í tilkynningunni segir að Íslendingar hafi mikinn áhuga á kerfinu og nú þegar hafi þúsundir skráð sig til leiks og að biðlistinn stækki hratt. Opnað verður fyrir nokkur hundruð notendur innan skamms og geta áhugasamir skráð sig á vefsíðu OZ, www.oz.com.