Samskip hafa bætt við fjórða skipinu, Skaftafelli, í vöruflutninga milli Íslands og meginlands Evrópu. Fyrir eru Arnarfell, Helgafell og Hoffell á siglingaleiðinni. Með tilkomu Skaftafells hafa tvö skip félagsins nú viðkomu í Reykjavík í viku hverri. Með þessu eru Samskip að bregðast við aukinni eftirspurn eftir flutningum til og frá landinu og bæta um leið þjónustu sína víða um land.

Fram kemur í tilkynningu að áætlunin á ströndinni verði þannig að aðra vikuna sigla skipin til Ísafjarðar, Akureyrar, Húsavíkur og Reyðarfjarðar og hina vikuna hafa skipin viðdvöl á Sauðárkróki Akureyri og Reyðarfirði á leið sinni til Evrópu. Með þessu skipulagi er hægt að þjóna fimm höfnum á landsbyggðinni, þar af tveimur vikulega.

„Þetta er merkilegur áfangi í starfsemi Samskipa. Við höfum tekið upp fjögurra skipa kerfi á ný, en að því höfum við stefnt í talsverðan tíma. Með batnandi efnahag hefur innflutningur aukist töluvert og það sama á einnig við um útflutning. Samskip hafa lagt áherslu á sveigjanleika í starfsemi sinni til að geta brugðist fljótt við nýjum aðstæðum eins og nú. Því er oft haldið fram að flutningar til og frá landinu séu mælikvarði á bjartsýni landsmanna og hvort hagur okkar sé að vænkast. Auknir flutningar benda til þess og getum við nú enn betur en áður mætt vaxandi eftirspurn,“ segir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa í tilkynningu.