Á aðalfundi Icelandic Group kynnti forstjóri félagsins að áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir að sala á árinu 2007 yrði um 1.550 milljónir evra og að EBITDA væri áætluð um 70 milljónir evra, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þar segir að forstjóri félagsins hafi kynnt nýtt skipurit fyrir Icelandic Group sem stjórn félagsins samþykkti á fundi sínum þann 23. mars 2007. Skipulag félagsins mun í framtíðinni byggja á fjórum megin stoðum, Icelandic Europe, Icelandic USA, Icelandic Asia og Icelandic Marketing. Tilgangur með breyttu skipulagi er að skerpa fókus í rekstri allra eininga innan Icelandic Group. Öll þjónustustarfsemi og fjárfestingarstarfsemi fellur undir Icelandic Investment and Developement.

Undir Icelandic Europe fellur öll verksmiðjustarfsemi félagsins í Evrópu, þ.e. Seachill og Coldwater í Bretlandi, Pickenpack Hussmann og Hahn í Þýskalandi, Pickenpack Gelmer í Frakklandi og Icelandic Scandinavia í Danmörku. Einnig fellur eignarhlutinn í Maru Seafood í Færeyjum undir Icelandic Europe. Finnbogi A. Baldvinsson stýrir Icelandic Europe.

Undir Icelandic USA fellur verksmiðjurekstur félagsins í Bandaríkjunum og rekstur Ocean to Ocean í Kanada og Bandaríkjunum. Ævar Agnarsson stýrir Icelandic USA.

Undir Icelandic Asia fellur öll starfsemi félagsins í Kína, Kóreu og Tælandi. Einnig fellur eignarhlutur félagsins í Elite, sem elur og framleiðir Tilapiu í Kína, undir Icelandic Asia. Ellert Vigfússon stýrir Icelandic Asia.

Undir Icelandic Marketing falla Icelandic Iberica, Icelandic France, Icelandic UK, Marinus, Icelandic Japan og Icelandic Norway. Björgólfur Jóhannsson stýrir Icelandic Marketing.

Undir Icelandic Investment and Development fellur starfsemi Icelandic Services, Gadus, Danberg, Fiskval og VGI.

Björgólfur Jóhannsson verður áfram forstjóri Icelandic Group.