„Þetta fyrirkomulag er mjög þekkt erlendis og kjörið fyrir þá sem vilja litla yfirbyggingu,“ segir Tómas Hilmar Ragnarsson sem mun á mánudag opna Orange, nýtt skrifstofu- og fundahótel í Ármúlanum. Það er félagið Orange Project sem stendur að rekstrinum. Að honum koma með Tómasi þau Jón Gunnar Sævarsson, Fríða Rúna Þórðardóttir og aðrir fjárfestar. Ekki er um eiginlegt hótel að ræða heldur skrifstofurými og fundarsali, sem einyrkjar eða lítil fyrirtæki geta leigt í lengri eða skemmri tíma. Skrifstofuhótelið er í Ármúla 6, beint á móti höfuðstöðvum tryggingarfélagsins VÍS, en húsið hýsti áður skrifstofur verkfræðistofunnar Verkís.

Orange Project ehf. leigir húsið, sem er á þremur hæðum, af fasteignafélaginu Reginn hf. Hver hæð er 600 fermetrar og rýmið er því 1.800 fermetrar í heildina. Fyrsta hæðin hefur þegar verið innréttuð og er hugmyndin að taka hinar tvær í notkun þegar fram líða stundir. Átta af átján skrifstofum á fyrstu hæðinni hafa þegar verið leigðar út.

Tómas segir í samtali við Viðskiptablaðið rýmið hentugt fyrir einyrkja og lítil fyrirtæki en nýtast auk þess fyrir fólk á ferðinni sem vilji leigja sér rými í styttri tíma. Til dæmis fyrir fólk sem er að koma til landsins á ráðstefnur og vill hafa fasta starfsstöð eða fyrir fólk utan af landi sem er mikið í Reykjavík.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .