Sprotafyrirtækið geoSilica er eitt nokkurra fyrirtækja sem eiga sér aðsetur í frumkvöðlasetrinu Eldey en það er á gamla varnarliðssvæðinu sem nú nefnist Ásbrú. Fyrirtækið sérhæfir sig í vinnslu kísils til manneldis og er það afrakstur verkefnavinnu tveggja nemenda við háskólabrú Keilis, þeirra Fidu Abu Libdeh, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins, og Burkna Pálssonar sem er tæknistjóri.

Fida hefur búið á Íslandi síðan hún var sextán ára gömul en hún kom hingað til lands frá Palestínu ásamt fjölskyldu sinni. „Það gekk mjög hægt fyrir mig að aðlagast íslensku samfélagi þegar ég flutti hingað og mér tókst ekki að klára stúdentspróf á réttum tíma vegna þess að ég gat aldrei klárað sömu íslensku og allir hinir og fékk enga undanþágu,“ segir Fida og minnist þess hversu miklu máli það skipti fyrir hana þegar háskólabrú Keilis var stofnuð árið 2007.

„Þegar Keilir kom til sögunnar fékk ég loksins tækifæri til að klára stúdentsprófið og fara í háskóla en ég er núna í MBA námi í Háskólanum í Reykjavík samhliða vinnu minni hjá geoSilica,“ segir Fida.

Nánar er fjallað um málið í Reykjanesblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .