Þann 1. ágúst sl. hóf Sigurður Örn Guðleifsson lögfræðingur störf hjá SVÞ – samtökum verslunar og þjónustu. Sigurður lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1998 og meistaraprófi í umhverfisfræðum frá sama skóla 2002.

Hann starfaði til margra ára hjá Umhverfisstofnun sem einnig hafði yfirumsjón með matvælamálum hér á landi. Síðast liðið ár starfaði Sigurður hjá Félagi íslenskra stórkaupmanna.

Á vef samtakanna kemur fram að Sigurður hefur aflað sér þekkingar og reynsla á flestum sviðum lögfræðinnar en þó einkum lagareglum sem varða umhverfis-, matvæla- og lyfjamál auk stjórnsýsluréttar, útboðsréttar og neytendaréttar.

„Með ráðningu lögfræðings vilja SVÞ efla og breikka þá þjónustu sem boðið hefur verið uppá. Mun sérþekking Sigurðar nýtast þar. Eru aðildarfélög samtakanna hvött til að nýta sér þjónustu lögfræðingsins og leita til hans með álitamál sem uppi eru í fyrirtækjunum og greiða þarf úr,“ segir á vef Samtakanna.

Guðbjörg Sesselja Jónsdóttir hefur einnig hafið störf hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu. Hún tók við af Óskari Björnssyni sem skrifstofustjóri samtakanna.

Guðbjörg starfaði áður hjá Félagi íslenskra stórkaupmanna og hefur þaðan mikla og góða reynslu af störfum við hagsmunagæslu. Guðbjörg hefur lokið námi í rekstrar- og viðskiptafræði við EHÍ og námi í þjónustustjórnun við viðskiptadeild HÍ.