Vonir standa til að íslenskir bíleigendur geti sparað sé háar fjárhæðir á ári fyrir tilstilli miðlægrar stýringar á umferðaljósum á höfuðborgarsvæðinu sem leiða á til styttri ökutíma, kerfi sem Reykjavík og Vegagerðin hafa ákveðið að taka upp. Heildarsparnaður er nokkuð á reiki eins og sést á að aðilar málsins segja hann geta orðið á milli 125 til 900 milljónir króna á ári, miðað við að hver stund í akstri kosti 1.555 krónur.

Kostnaður við fyrri áfanga kerfisins sem nær til umferðarljósa í Reykjavík og þriggja gatnamóta í Garðabæ er 280 milljónir og um 500 milljónir við síðari áfangann sem lokið verður árið 2010. Skiptist kostnaður jafnt milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.

Aksturstími verði 2-10% styttri en nú

Fyrsti áfangi kerfisins var tekinn í notkun í dag, en hann nær til ljósa á 36 gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu, en alls er 116 gatnamótum í Reykjavík stjórnað með umferðarljósum. Siemens framleiðir kerfið, sem Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa undanfarin tvö ár undirbúið að taka í notkun. Stýrikerfið aðlagar umferðarljósin að umferðarálaginu hverju sinni og velur það stýriforriti sem er hagkvæmast og lágmarkar biðtíma vegfarenda. Stýringin byggist á skynjurum og samskiptaneti milli upplýsingasöfnunar og stjórnkassa og stjórntölvu. Þá fylgir hugbúnaðinum sjálfvirkt vöktunarkerfi sem tilkynnir bilanir samstundis til vaktmanna sem geta staðsett bilun og gert viðeigandi ráðstafanir.

Samkvæmt reiknilíkani umferðar á höfuðborgarsvæðinu eru eknir þar um 1.260 milljón km árlega. Gert er ráð fyrir að eknir séu um 150 milljón km á því svæði sem umferðarljósastýringin nær nú þegar til og að það taki ökumenn um fjórar til sex klukkustundir að aka þessa vegalengd. Miðað við erlenda reynslu er gert ráð fyrir að þessi miðlæga stýring skili sér í 2-10% styttri aksturstíma.