Ráðherra ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, tók formlega í notkun nýtt tengivirki Landsnets og Veitna á Akranesi.

„Með tilkomu nýja tengivirkisins eykst flutningsgeta raforku til muna á Akranesi og í nærsveitum. Samhliða byggingu tengivirkisins hefur allt dreifikerfið á Akranesi verið uppfært til samræmis við það sem best þekkist á landinu,“ segir í fréttatilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þórdís Kolbrún sagði í ávarpi við tilefnið að um mikilvægan áfanga sé að ræða í orkumálumAkraness og nærsveita.

Nýja tengivirkið á Akranesi er staðsett við Smiðjuvelli 24 en gamla tengivirkið var á svæði sem nú hefur verið skipulagt sem íbúðarhverfi.

Byggingin sem er um 1150 fm er 70% í eigu Veitna og 30% í eigu Landsnets. Rafmagn kemur til stöðvarinnar frá Brennimel og frá Andakíl eftir flutningskerfi Landsnets og við hana tengjast 45 dreifistöðvar (spennistöðvar), staðsettar vítt og breitt um bæinn.

Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna segir að ánægjulegt sé að taka tengivirkið í notkun. „Það er mikilvægt fyrir okkar viðskipti hér á Skaganum að þetta mannvirki er komið í notkun. Samhliða byggingu þess uppfærðum við og gerðum endurbætur á dreifikerfinu í bænum. Ég ætla ekki að lofa miklu betra rafmagni í innstungur íbúa en áframhaldandi traustri og góðri þjónustu starfsfólks Veitna,“ er haft eftir henni í fréttatilkynningu frá Veitum.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að nýja tengivirkið komi til með að auka öryggi orkuafhendingar á svæðinu og bæta aðgang viðskiptavina að rafmagni.  „Með tilkomu þess verður staðan eins og best gerist á landinu. Aukið aðgengi að rafmagni og bætt öryggi er forsenda þess að raunhæft sé að skipta út mengandi orkugjöfum fyrir rafmagn. Á Akranesi eru tækifæri til orkuskipta bæði í samgöngum og atvinnulífinu sem vert er að skoða,“ er haft eftir Guðmundi.