Búðarhálslína og nýtt tengivirki Landsnets voru tekin í notkun fyrr í dag þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra spennusetti virkið við mikinn fögnuð viðstaddra. Í framhaldi munu fara af stað prófanir á vélbúnaðinum og raforkuframleiðsla inn á kerfið mun hefjast innan tíðar.

Mögulegt er að stækka þetta nýja tengivirki síðar og er þá flutningslína til Norðurlands mönnum ofarlega í huga. Það gæti komið sér vel fyrir marga þar sem flutningstakmarkanir koma í veg fyrir staðsetningu meðalstórra fyrirtækja á stórum hluta landsins.

Ragnheiður Elín lagði áherslu á afhendingaröryggi raforku í ræðu sinni í morgun og sagði landið skiptast í tvær eyjar í þeim efnum, norður og suður.

VB Sjónvarp ræddi við Guðmund Inga Ásmundsson, aðstoðarforstjóra Landsnets, og Ragnheiði Elínu.