Útibú Spron í Álfabakka var opnað í gær eftir gagngerar endurbætur á húsnæðinu. Útibúið var opnað í september 1988 og hafa innréttingar verið nánast óbreyttar síðan. Á vormánuðum 2005 var farið að huga að endurnýjun þessa útibús með það að markmiði að ljúka breytingum árið 2005. Í september var síðan endanlega ákveðið að ráðast í framkvæmdir og ljúka þeim á þessu ári.

Þó hér sé um endurnýjun að ræða, var nánast öllum tækjum og innréttingum skipt út. Allar endurbætur útibúsins eru í samræmi við breyttar þjónustuþarfir viðskiptavina sparisjóðsins. Starfsstöðvar þjónustufulltrúa hafa verið bættar sem og ný gjaldkerastúka sett á nýjan og betri stað í útibúinu. Flatsjónvarp sem ætlað er að miðla upplýsingaefni til viðskiptavina hefur verið settt upp og í afgreiðslusal er komin nettengd tölva til frjálsra afnota fyrir viðskiptavini sparisjóðsins, en slíkt auðveldar mjög viðskipti í Heimabanka SPRON án biðraða. SPRON lítur á bankaviðskipti sem langtímasamband sem þarf að rækta vel í gagnkvæmu trausti.

Útibúið var hannað af arkitektunum Heiðu Elínu Jóhannsdóttur og Dóru Hansen hjá Innanhúsarkitektum Eitt-A.

Þjónustustjóri er Svanhvít Sverrisdóttir. Útibússtjóri er Ari Bergmann Einarsson sem jafnframt stýrir útibúi SPRON í Skeifunni, Smáralind og Spönginni.