Nokkrum dögum fyrir ákvörðun HB Granda um að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi uppfærði Capacent verðmat á fyrirtækinu og er Viðskiptablaðið með það undir höndum.

Verðmatið er dagsett 24. mars en þá var gengi í hlutabréfum HB Granda 33,9 og markaðsvirði fyrirtækisins tæplega 61,8 milljarðar króna. Verðmat Capacent er 21% undir markaðsvirði eða 49 milljarðar króna, sem þýðir að verð á hlut er 26,9. Þegar Capacent gerði verðmat síðasta sumar þá var verðmatsgengið 29,9, sem var mjög nálægt markaðsgengi félagsins á þeim tíma.

Um áramótin síðustu var markaðsgengi HB Granda 26 en síðan þá hefur það hækkað mikið og var 33,95 á föstudaginn í síðustu viku, sem er um 30% hækkun á þremur mánuðum. Í gær stóð gengi bréfanna í 32,2.

„Erfitt er að skýra þá miklu hækkun sem hefur verið á markaðsgengi Granda síðan um áramótin," segir í verðmati Capacent. „Hugsanlegt er að fjárfestar séu að ofmeta áhrif gengisveikingar krónu síðustu vikurnar inn í verðmatsgengið. Einnig er mögulegt að fjárfestar hafi talið gengi krónunnar vera orðið hátt og því hafi verið góð gengisvörn í kaupum á félagi líkt og Granda, sem hefur sjóðsstreymi í erlendum myntum. Hins vegar hafa gjaldeyrishöft verði afnumið og sá rökstuðningur á síður við en fyrir nokkrum vikum."

Í verðmatinu er farið yfir rekstur fyrirtækisins undanfarin ár.

„Lukkuhjólið snerist með Granda á árunum 2012 til 2015. Hins vegar var rekstrarumhverfi ekki jafn hagfellt á síðasta ári. Sjómannaverkfall, mikil styrking krónu og lítils háttar hækkun olíuverðs hafði neikvæð áhrif á rekstrarafkomu. Hagnaður fyrirtækisins lækkaði úr 44,5 milljónum evra árið 2015 í 26,2 milljónir evra árið 2016. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir eða EBITDA lækkaði úr 54,2 milljónum evra í 44,3 milljónir og EBITDA hlutfallið lækkað úr 24,1% í 22,0%.

En jafnvel þótt rekstrarárið 2016 hafi verið það slakasta síðastliðin fimm ár var það ekki óvenjulega slæmt. Olíuverð var enn sögulega lágt og raungengi krónunnar var skaplegt í sögulegu samhengi fram undir fjórða ársfjórðung. Hins vegar verður að horfa til þess að allt vann með félaginu á árunum á undan. Sögulega lágt raungengi krónu, gott ástand fiskistofna, lágt olíuverð og gott afurðaverð."

Spá um afkomu

Í verðmati Capacent er að finna spá um afkomu næstu ára. Í henni er gert ráð fyrir því að hækki smám saman eða úr 26 milljónum evra í fyrra í 38 milljónir árið 2021. Samkvæmt spánni verður EBITDA-hlutfallið í á bilinu 25 til 26% á árunum 2017 til 2021. Ein af þeim forsendum sem Capacent leggur til grundvallar spánni er að fjárfestingarhlutfallið lækki töluvert. Síðustu ár hefur fyrirtækið staðið í miklum fjárfestingum við að endurnýja skipaflotann og hlutfallið síðustu fjögur ár hefur verið á bilinu 24,5 til 36,3%. Capacent gerir ráð fyrir því að þetta hlutfall verði 15,1 til 15,5% næstu fimm ár.

HB Grandi
HB Grandi

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .