Páll Harðarsson, forstjóri Kauphallarinnar segir að það komi til greina að taka upp nýtt verklag til að miðla upplýsingum um stærstu hluthafa skráðra félaga. Þetta kemur fram á Vísi.is .

Nýverið var greint frá því að Kauphöllin hætti að birta lista yfir tuttugu stærstu hluthafa í skráðum félögum. Ákvörðunin var tekin með hliðsjóna af nýjum persónuverndarlögum en Kauphöllin óskaði þó ekki álits Persónuverndar áður en ákvörðunin var tekin.

Ákvörðunin hefur sætt mikilli gagnrýni en meðal þeirra sem gagnrýnt hafa ákvörðunina er Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Óli Björn sagði á Facebook síðu sinni á dögunum að ákvörðunin væri „öfugsnúin“, það hafi tekið langan tíma að berjast fyrir gagnsæi á íslenskum hlutabréfamarkaði og að þessi ákvörðun sé skref aftur á bak.

„Við höfum fengið samdóma álit okkar sérfræðina á málinu. Þar að auki koma þetta tiltekna mál seint upp áður en lögin tóku gildi. Við mátum það sem svo að við gætum ekki fengið í tæka tíð álit frá Persónuvernd. Að svo stöddu ákváðum við að hætta þessari dreifingu,“ segir Páll í samtali við Stöð tvö.

„Það mætti skoða það nú í kjölfarið að taka upp nýtt verklag. Svo framarlega sem það liggur fyrir óyggjandi samþykki viðkomandi einstaklinga og hlutafélögin geta komið því samþykki á framfæri við Kauphöllina, þá finnst mér alveg koma til greina að skoða það,“ segir hann.