Gengi Actavis Group hækkaði um 2,21% í gær í kjölfar þess að greiningardeild Glitnis birti nýtt verðmat á félaginu og mælti með kaupum á félaginu.

Verðmatsgengið hljóðar upp á 87,7 krónur á hlut og sex mánaða markgengi er 95 krónur á hlut. Gengi Actavis Group var 73,9 krónur á hlut við lok markaðar í gær, samkvæmt upplýsingum frá M5. Fyrra verðmat greiningardeildarinnar var 68,1 krónur á hlut.

Stór hluti af veltu gærdagsins á hlutabréfamarkaði var með bréf Actavis Group, eða um 1,6 milljarðar króna af 4,4 milljarða króna heildarveltu.


Í verðmatinu segir markmið stjórnenda Actavis Group um að lækka kostnaðarverð seldra vara um þrjú prósentustig af tekjum á næstu árum vera metnaðarfullt, því það þýði það að EBITDA framlegðarhlutfallið hækki í 25% frá og með árinu 2009 en á síðasta ári varð það 21,4%.

"Sem fyrr segir spáum við því líkt og í síðasta verðmati okkar að félagið haldi 23% EBITDA framlegðarhlutfalli til framtíðar frá og með árinu 2008. Ef tekið væri mið af áætlun stjórnenda um 25% EBITDA framlegð myndi fást verðmatsgengið 100, að gefnu því að aðrar forsendur héldust óbreyttar," segir í verðmatinu.

Actavis hefur lýst yfir áhuga á að kaupa samheitalyfjastarfsemi Merck, sem er þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi. Greiningardeildin telur, í ljósi reynslunnar af yfirtökutilrauninni á Pliva, að stjórnendur Actavis séu reiðubúnir að borga allt að 13-14 EV/EBITDA fyrir reksturinn, en yfirtökur undanfarinna ára í samheitalyfjageiranum hafa verið nálægt því gildi.

"Verði ekki af yfirtöku er stærsta hluthafa Actavis og stjórnendum í lófa lagið að falbjóða sín bréf í Actavis til áhugasamra kaupenda, sem væntanlega myndu þá bjóða nálægt 14 EV/EBITDA. Við sölu eignarhluta fyrrnefndra aðila myndi stofnast skylda til að gera yfirtökutilboð í félagið," segir í verðmatinu.