Greiningardeild Glitnis hefur hækkað verðmatsgengi sitt á Alfesca[ A ] í 6,1 krónu á hlut úr 5,9 - sem er 12% undir markaðsgengi, sem er 6,9. Markgengi til tólf mánaða hefur verið hækkað í 7,2 krónur á hlut.

Helstu ástæður fyrir hækkuðu verðmatsgengi eru meðal annars fólgnar í því að uppgjör félagsins fyrir þriðja fjórðung var yfir væntingum greiningardeildar sem og að afkomuhorfur eru góðar fyrir Alfesca, að hennar sögn. Auk þess hefur gengiskross evru og krónu hækkað frá síðasta verðmati, það hefur jákvæð áhrif þar sem hlutafé Alfesca er skráð í ISK.

Ráðleggur greinignardeildin  fjárfestum að halda bréfum í Alfesca horft til lengri tíma.

"Við teljum að spennandi tímar séu framundan hjá Alfesca. Félagið hefur tilkynnt um kaupviðræður við eigendur Oscar Mayer Ltd í Bretlandi. Það félag framleiðir og selur tilbúna rétti (e. ready meals) undir merkjum annarra (e. private label) og er mikilvægur birgir fyrir Sainsbury's og Morrisons verslanakeðjurnar á Bretlandi. Ytri vöxtur á þessu sviði myndi auka áhættudreifingu samstæðunnar og minnka árstíðarsveiflu, hvoru tveggja er mikilvægt fyrir Alfesca að okkar mati," segir greiningardeildin.