Út er komið nýtt verðmat á Landsbanka Íslands af hálfu greiningar Íslandsbanka. Niðurstaða verðmatsins er 126 ma.kr. sem jafngildir 15,0 krónum á hlut. "Við mælum með að fjárfestar haldi bréfum í Landsbankanum til lengri tíma litið. Ráðgjöf okkar til skemmri tíma er að markaðsvega bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Útlán Landsbankans hafa haldið áfram að vaxa gríðar hratt, en hraðast hafa útlán utan Íslands vaxið. Við eigum áfram von á hröðum útlánavexti á næstunni. Til skemmri tíma má búast við að verkefnum fjölgi þar sem Landsbankinn tekur þátt í erlendum fjárfestingum íslenskra fyrirtækja. Síðar meir má búast við vexti í erlendum fyrirtækjaverkefnum, einkum í Bretlandi. Reiknað er með því að vaxtamunur lækki samhliða örum vexti. Til lengri tíma er miðað við 2,1% af meðalstöðu heildareigna, samanborið við 2,6% í fyrra.

Þóknunartekjur og gengismunur verða fyrirferðarmiklir tekjustofnar með áherslu bankans á fjárfestingarbankastarfsemi. Til lengri tíma er reiknað með 53% kostnaðarhlutfalli og að framlag í afskriftareikning útlána verði 0,7% af útlánum. Gerð er 11,3% nafnávöxtunarkrafa á frjálst sjóðstreymi. Verðmatið byggir á rekstrarhorfum fyrir núverandi rekstur en ekki á forsendum um ytri vöxt. Athygli er vakin á greiningu á næmi verðmatsins fyrir breytingum í helstu forsendum segir í Morgunkorni Íslandsbanka.