Stjórn Nýherja hf. hefur ákveðið að innleiða nýtt viðskiptamódel og skipulag fyrir félagið. Markmið með breytingunum er að skerpa áherslur með sérhæfingu dótturfélaga á einstökum sérsviðum ásamt því að samhæfa og auka hagkvæmni í rekstri félagsins, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Helstu breytingar felast í eftirfarandi að Nýherji hf. verður móðurfélag sex megin dótturfélaga. Einnig verður sala og vörustjórnun á tölvu og tæknibúnaði hjá Nýherja hf.

Hvert dótturfélag sérhæfir sig á afmörkuðu sviði þjónustu, hugbúnaðar eða ráðgjafar með það að markmiði að mæta þörfum viðskiptavina á því sérsviði.

• Dótturfélögin verða: o Skyggnir ehf. sérhæft á sviði bestunar UT kerfa, samþættingu samskiptalausna og rekstrarþjónustu. o Sense ehf. fyrir stafrænar lausnir, svo sem fyrir hljóð- og myndbúnað. o TM Software ehf. með áherslu á viðameiri hugbúnaðarþróun og samþættingu kerfa. o Applicon ehf. með áherslu á viðskiptahugbúnað, fjármálalausnir og sérhæfðar atvinnugreinalausnir. o Nýtt félag verður stofnað um alla sameiginlega stoðþjónustu fyrir samstæðuna, en það mun í framtíðinni einnig bjóða slíka þjónustu til annarra viðskiptavina. o ParX ehf. sem mun áfram verða sérhæft á sviði vandaðrar viðskiptaráðgjafar.

Starfsemin mun að verulegum hluta flytjast að Urðarhvarfi 6 í Kópavogi, þar sem TM Software er nú til húsa, en félagið verður einnig með starfsemi í húsnæði Nýherja að Borgartúni 37.

Nýtt viðskiptamódel Nýherja samstæðunnar verður komið til framkvæmda í nóvember.

Meginverkefni starfsmanna Nýherja og dótturfélaga felst í því að vinna náið með viðskiptavinum sínum við það að ná fram auknum sveigjanleika lækkun kostnaðar eða öðrum ávinningi í þeirra rekstri.  Með breytingunum verður skerpt frekar á þessum áherslum og tryggt að starfsfólk geti náð hámarks árangri í samvinnu við sína viðskiptavini.

Starfsfólk Nýherja á Íslandi er um 550 og munu um 500 starfa hjá dótturfélögum, en um 50 í móðurfélaginu. Starfsmenn erlendis eru um 180 og starfa því alls um 730 manns hjá Nýherja og dótturfélögum.