Kvosin er nýtt viðskiptasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem opnað verður á morgun í húsi Íslandsbanka við Lækjargötu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en tuttugu einstaklingar hafa fengið aðstöðu í Kvosinni til að vinna að alls tíu viðskiptahugmyndum.

Í tilkynningunni kemur fram að hugmyndirnar séu mjög fjölbreyttar, þar á meðal áhættureiknir fyrir sykursjúka, hugbúnaður á sviði heilsutækni, fjármálaráðgjöf, þekkingarmiðlun og framleiðsla á raföryggisvörum.

„Viðskiptasetrinu er ætlað að veita einstaklingum aðstöðu, tengslanet og stuðning til að stofna fyrirtæki undir faglegri handleiðslu sérfræðinga Impru á Nýsköpunarmiðstöð,“ segir í tilkynningunni.

Kvosin er samstarfsverkefni Íslandsbanka, Nýsköpunarmiðstöðvar og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Hún er reist á reynslu og þekkingu Impru á Nýsköpunarmiðstöð sem starfrækir nú fimm frumkvöðla- og viðskiptasetur og verður það sjötta opnað á Ísafirði í marsbyrjun.