Í ljósi breyttra aðstæðna í efnahagslífinu hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og Landsbankann ákveðið að opna nýtt viðskiptasetur þar sem einstaklingar fá aðstöðu og umgjörð til að vinna að viðskiptahugmyndum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Viðskiptasetrið hefur hlotið nafnið Torgið – viðskiptasetur.

Landsbankinn mun leggja verkefninu til húsnæði og alla aðstöðu í skrifstofurými bankans í Austurstræti 16. Húsnæðinu fylgir tölvubúnaður og skrifstofuhúsgögn fyrir allt að 25 manns og er öll aðstaða til fyrirmyndar.

Elín Sigfúsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu: „Við hjá Landsbankanum hrifumst mjög af hugmyndinni um stofnun viðskiptaseturs í miðborginni fyrir frumkvöðla sem leitast við að skapa eigin atvinnugrundvöll. Framúrskarandi aðstaða og góð staðsetning er afar dýrmæt fyrir slíkt setur og það getur Landsbankinn lagt til ásamt því að miðla af reynslu sinni á þessu sviði. Mikilvægt er að viðskiptasetrið verður opið fyrir allar góðar hugmyndir og þangað verða bestu verkefnin valin af fagmönnum. Það er áralöng hefð fyrir stuðningi Landsbankans við nýsköpun og frumkvöðlastarf í íslensku atvinnulífi en það hefur bankinn gert jafnt með fjárfestingum, lánafyrirgreiðslu og beinum styrkjum.“

Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, segir: „Mikill mannauður býr í þeim sem hafa þurft að hverfa frá störfum undanfarnar vikur og mánuði. Á Torginu fá kraftmiklir einstaklingar tækifæri til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Þetta er ný sókn við nýjar, óvæntar aðstæður og ég þakka samstarfsaðilum okkar traustið og trúna á aðferðafræði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.“

Torgið - viðskiptasetur verður opnað mánudaginn 17. nóvember. Í fréttatilkynningunni segir að fólk með viðskiptahugmyndir á öllum sviðum er hvatt til að sækja um aðstöðu á Torginu. Tekið er á móti fyrirspurnum um setrið á netfanginu [email protected] en umsóknareyðublað er að finna á vef Nýsköpunarmiðstöðvar, www.nmi.is .

Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og Samtök atvinnulífsins undirrituðu um miðjan október samstarfssamning um leit og framboð á möguleikum til atvinnusköpunar fyrir félagsmenn SSF. Opnun Torgsins – viðskiptaseturs er liður í þeim samningi.

Torgið er reist á reynslu og þekkingu Impru á Nýsköpunarmiðstöð sem starfrækir þrjú önnur frumkvöðlasetur.

Á Keldnaholti í Reykjavík eru tólf fyrirtæki, þar á meðal ORF Líftækni sem hlaut Nýsköpunarverðlaunin 2008.

Á háskólasvæði Keilis eru átta fyrirtæki og einnig rekur Nýsköpunarmiðstöð frumkvöðlasetur á Höfn í Hornafirði.

„Sagan hefur sýnt að á krepputímum hefur nýsköpun blómstrað. Á Torginu er verið að skapa frjóum hugmyndum farveg sem vonandi á eftir að koma frumkvöðlunum til góða og þjóðarbúinu. Innan Nýsköpunarmiðstöðvar er hægt að fá ókeypis handleiðslu um allt sem snýr að stofnun og rekstri fyrirtækja, allt frá hugmyndastiginu þar til í framkvæmd er komið,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar og rekstrarstjóri frumkvöðlasetranna.