Í Viðskiptablaðinu í dag er greint frá því að þróun Windows 7, næsta stýrikerfis Microsoft, sé komin á lokastig. Er svokölluð RC-útgáfa (Release Candidate) nú fáanleg á Netinu á microsoft.com/windows7.

Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, segir að kerfið sé svo gott sem tilbúið og hver sem er geti nálgast RC-útgáfuna á netinu og sett hana upp á sína tölvu. Ekki sé þó enn komin tímasetning á hvenær svokölluð er RTM (Release To Manufacturing) útgáfa af Windows 7 verður til sölu í verslunum. Líklega verði það þó ekki fyrr en á seinni hluta næsta árs. Þeir sem vilja geta þó væntanlega notast við RC-útgáfuna fram á mitt ár 2010.

„Það kemur okkur skemmtilega á óvart hvað viðtökurnar hafa verið fádæma góðar við þessu stýrikerfi," segir Halldór. „Ég var að enda við að keyra RC-útgáfuna inn á fjögurra ára gamla fartölvu sem ég er með og hún hefur aldrei verið sprækari. Hún er bæði hraðvirkari og rafhlöðuendingin er meiri.

Þegar hafa þúsundir einstaklinga prófað Beta útgáfuna af Windows 7 þar á meðal fjölmargir Íslendingar. Segir Halldór að nýja stýrikerfið virki mjög vel, líka á eldri vélar sem ekki réðu við Windows Vista-stýrikerfið. Hann vill þó benda notendum Beta-útgáfunnar á að uppfæra í RC-útgáfuna því Beta-útgáfan muni væntanlega renna út í lok júní.