*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 10. maí 2019 13:14

Nýtti kauprétt og seldi hluta strax

Fráfarandi framkvæmdastjóri kjúklingaiðnaðar Marels keypti fyrir 31,5 milljónir í félaginu en seldi fyrir 54,9.

Ritstjórn
Frá sýningu á vörum Marels í Kaupmannahöfn.
Aðsend mynd

Anton de Weerd, fráfarandi framkvæmdastjóri kjúklingaiðnaðar Marel, nýtti í dag hluta kaupréttar sem hann á í fyrirtækinu. Hluta þeirra bréfa sem hann keypti seldi hann skömmu síðar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

de Weerd keypti alls 153 þúsund hluti á genginu 205,81 eða fyrir tæplega 31,5 milljónir íslenskra króna. Þá seldi hann 93 þúsund hluti á genginu 590 en upphæð þeirra viðskipta nemur tæplega 54,9 milljónum. Mismunurinn er því tæpar 23,4 milljónir króna. Eftir viðskiptin á de Weerd 180 þúsund hluti í Marel og kauprétt á tæplega milljón hluti til viðbótar.

Tilkynnt var um það í morgun að frá og með 1. september næstkomandi myndi hinn hollenski Roger Claessens taka við starfi de Weerd sem framkvæmdastjóri kjúklingaiðnaðar. de Weerd mun styðja við breytingarnar fram til þess tíma en eftir það taka við nýju hlutverki hjá Marel.

„Það hefur verið ánægjulegt að starfa með Anton að þeirri vegferð að umbylta kjúklingavinnslu á heimsvísu og ég er jafnframt ánægður með að Marel haldi áfram að njóta góðs af starfskröftum hans, reynslu og þekkingu. Á 37 ára starfsferli sínum hjá Marel hefur Anton verið einstakur liðsmaður og gegnt lykilhlutverki í að skila góðri rekstrarniðurstöðu og undirbúa Marel fyrir frekari vöxt og virðisaukningu,“ er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel, í tilkynningu frá félaginu fyrr í dag.

Stikkorð: Marel