Hluthafar Icelandair nýttu áskriftarréttindi frá hlutafjárútboði flugfélagsins í september síðastliðnum fyrir alls 16,4 milljónir dala, eða um 2,1 milljarð króna, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Fresturinn til að innleysa áskriftarréttindin rann út á fimmtudaginn síðasta, 19. ágúst.

Icelandair mun gef út nýtt hlutafé fyrir 1.862 milljónir króna að nafnverði vegna nýtingu áskriftarréttindanna í flokkunum ICEAIRW130821. Heildarhlutafé flugfélagsins verður nú 35.958 milljónir króna og eykst því um tæplega 5,5%.

Nýtingarverð áskriftarréttindanna sem um ræðir er 1,13 krónur á hlut, 20% undir núverandi hlutabréfagengi Icelandair sem stendur nú í 1,42 krónum á hlut. Fram kemur að gert sé ráð fyrir að afhending nýju hlutabréfanna fari fram eigi síður en þriðjudaginn 31. ágúst næstkomandi.

Um er að ræða fyrsta flokk áskriftarréttinda sem kemur til innlausnar af þremur en síðari tveir flokkarnir verða til innlausnar í febrúar og ágúst á næsta ári. Áskriftarréttindin stofnuðust við þátttöku í hlutafjárútboði félagsins í september á síðasta ári en allir fjárfestar sem fengu úthlutuð hlutabréf í útboðinu fengu jafnframt áskriftarréttindi. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er þetta í fyrsta sinn sem svona áskriftarréttindi eru gefin út í íslensku hlutabréfaútboði.