Laugar ehf., rekstrarfélag World Class líkamsræktar­stöðvanna, hefur eignast fasteignina í Laugardalnum sem hýsir stærstu líkamsræktarstöð félagsins og skrifstofur þess. Seljandinn var Hömlur, dótturfélag Landsbankans, og var sölusamningurinn gerður í árslok 2012. Salan gekk endanlega í gegn fyrr á þessu ári en er bókfærð í ársreikningi Lauga fyrir síðasta ár. Kaupverð nam ríflega 2,5 milljörðum króna.

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Lauga, segir beinu brautina framundan hjá félaginu, en eiginfjárstaðan er í dag neikvæð þrátt fyrir tæplega 150 milljóna króna hagnað á síðasta ári. Málaferlum þrotabús Þreks ehf., fyrrum rekstrarfélags World Class, gegn Laugum ehf. er nú með öllu lokið en Laugar keyptu á síðasta ári kröfuréttindi af ALMC, sem áður hét Straumur Burðarás, fyrir 350 milljónir króna. Eigendur Lauga eru Sigurður Leifsson (26,8%) og hjónin Björn Leifsson (24,4%) og Hafdís Jónsdóttir (48,8%)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.